Læt samt vaða

Var á aðalfundi félags kúabænda í dag. Veit ekki hvort ég á að þora að segja frá fyrirlesara þess fundar þar sem að það er farið að finna mikið að því hér á moggablogginu að það sé talað um hana.

Ingibjörg Sólrún var alveg frábær á þessum fundi, allt sem hún sagði féll í góðan jarðveg hjá kúabændum, allir ætla að kjósa samfylkinguna þar sem þeir treysta henni fyrst og fremst til þess að bjarga bændum frá þeim slæmu tímum sem þeir lifa við í dag.

Sagði mig úr sjálfstæðisflokknum í dag og gekk í samfylkinguna!

Þetta vilja sennilega fylgisfólk samfylkingarinnar heyra svo það geti haldið áfram að fela sig fyrir sannleikanum.

Málið er að hún stóð sig alls ekki nógu vel. Flestar, og sennilega er mér óhætt að segja allar, tölulegar staðreyndir í ræðunni hennar voru rangar. Hún taldi að kúabændum hefði fækkað töluvert meira en raun ber vitni, niðurgreiðslur til kúabænda voru helmingi hærri í ræðunni hennar heldur en við fáum og svo mætti áfram telja.

Mér finnst líka alveg ótrúlegur málatilbúnaður samfylkingarinnar. Hún kvartar undan því að það sé ekkert aðhald í ríkisrekstrinum hjá núverandi stjórn en svo ætlar hún að lækka matvöruverð og vexti. Hvað gerir það annað en að auka á þensluna?

Svo finnst mér svo gaman að því þegar hún talar um að lækka matvælaverð. Það er eins og hún haldi í raun og veru að þau sem framleiða og vinna matvöruna okkar geti lifað í einhverju öðru hagkerfi en allir aðrir LoL. Það sé bara hægt að lækka matvælaverð án þess að annað þurfi að fylgja með. Það er nefnilega bara svo skrítið að allur sá fjöldi fólks sem vinnur eitthvað í sambandi við matvæli þarf líka að lifa og þarf að hafa þannig laun að það ráði við allt annað verðlag eins og aðrir. Það er því ALVEG sama hvað Ingibjörg Sólrún heldur fram en það er bara svo að ef það á að ná niður matarverði í koma því í samræmi við löndin í kringum okkur, þá þarf að koma flestu ef ekki öllu öðru niður í það líka. Það er ekki gert nema að minnka kaupmátt. Er það það sem samfylkingin vill????

Ekki vildi hún ræða í dag hvað mörg prósent launa íslendinga færi í matvælakaup. Það er nefnilega í samræmi við evrópuþjóðir en um það má ekki tala.

Því miður verð ég að segja að formaður samfylkingarinnar klúðraði málum enn í dag og ég bara skil ekki að fólk sé að kaupa þessar innihaldslausu yfirlýsingar hennar. Þeim er reyndar alltaf að fækka sem gera það.

Ég veit að það lítur út fyrir að margir hér á moggablogginu séu með einhverja þráhyggju þegar Ingibjörg Sólrún er annars vegar. En þegar frammistaðan er hjá henni eins og var í dag þá er bara ekki hægt að halda því fram að allt sé rétt og satt sem hún segir.

Henni var ráðlagt það af einum bónda í dag í góðvild, engin hæðni, að hún þyrfti að hætta að vera með þessar stóru yfirlýsingar sem hún er alltaf með og hefur engin rök til að styðja sitt mál. Ég vil meina að hún ætti að taka mark á því ráði og fara eftir því, þá kannski fær hún aftur þá virðingu sem hún áður hafði.


Danir næstir

Ef ég skil þetta kerfi rétt, þarna út í Þýskalandi, þá eru ekki tvö norðurlandalið á leiðinni í undanúrslit. Þau tvö lið sem eftir eru í keppninni og koma frá norðurlöndunum eiga að etja kappi saman í næstu umferð, Ísland gegn Danmörk.

Einkennilegt að þurfa að leggja frændur vora svía til að komast á HM og svo þurfum við að leggja dani til að komast í undanúrslit.

Fannst Birkir Ívar skemmtilega kaldur í dag. Hann vildi fá króatana í næstu umferð. Hann vildi meina að þeir myndu leggja þá og taka svo danina til að komast í úrslitaleikinn Grin.

Þá er bara að vona að það sé ekkert verra að snúa því við, taka danina fyrst og svo króatana.

Annars er það nú bara svo að íslenska landsliðið er komið bara mjög langt í keppninni. Ég yrði alveg sáttur við þó að þeir yrðu síðastir af þessum 8 liðum sem eftir eru en gaman væri samt ef þeir kæmust ofar Wink.

Tveir skemmtilegir dagar framundan vonandi. Er að fara að hlusta á Ingibjörgu Sólrúnu á morgun og svo sjá íslendingana leggja dani hinn.

Hvað getur maður beðið um það betra? Cool


Korter fyrir kosningar.

Skemmtilegt máltæki það Smile

Nú eru stjórnvöld mikið skömmuð fyrir það að vera að gera marga góða hluti "korteri fyrir kosningar", að nú eigi að kaupa atkvæði kjósenda og það ekki ódýru verði.

Mig langar að pæla aðeins í annari hlið á þessu máli, burt séð frá því hverjir eru í stjórn og hvar ég stend í pólitík.

Eðli mannsins er með þeim hætti að hann gerir sífelldar kröfur um bætur, skiptir engu máli hversu gott hann hefur það. Maður sem hefur 100 þús í mánaðarlaun er náttúrulega ekki sáttur við það en ef hann hækkar um 100% í launum þá er það fínt í einhvern tíma en svo vilja menn meira.

Þetta eðli er af hinu góða og gerir það að verkum að við erum alltaf að leitast við að bæta samfélag okkar.

Setjum sem svo, bara dæmi, að VG næði hreinum meiri hluta í næstu kosningum. Þeir hafa bent á marga brotalömina í stjórn núverandi stjórnar að þeirra mati og vilja breyta mörgu. Setjum sem svo að því öllu væri hægt að breyta strax næsta sumar en það kostaði það mikið að það væri ekki hægt að bæta margt í viðbót restina af kjörtímabilinu og kannski væri vanþörf á þar sem allt væri orðið svo gott.

EN! Þá kemur að þessu eðli mannsins. Hann væri ekkert sáttur við það að ekkert eða lítið lagaðist þessi ár, sama hversu gott hann hefði það fyrir, og væri löngu búinn að gleyma þeim góðu verkum sem gerð voru í upphafi kjörtímabilsins.

Það sem ég er semsagt að reyna að velta fyrir mér er, þó að ríkisstjórn komi mörgum góðum verkum í gegn "korteri fyrir kosningar" er það endilega eingöngu ætlaði til þess að ná í atkvæði, eða hefur stjórnin alltaf haft löngun til að gera þetta en viljað fá þakkirnar og þess vegna látið verkin tala á þessum tímapunkti?

Spyr sá sem ekki veit Smile


Athyglisvert!

Athyglisvert ef satt reynist.

Ef viðskiptahallinn er ofmetinn um tugi milljarða vegna erlendrar hlutabréfaeignar íslendinga erum við allt annari stöðu en við héldum...... eðlilega. Þá er gríðarlega stór hluti þess gjaldeyris sem til landsins kemur í formi hagnaðar af hlutabréfum.

Hvað segir það okkur?

Það segir okkur að sú stjórn sem nú er við völd er að stór auka tekjur þjóðarinnar með verkum sínum undanfarin ár. Einkavæðing bankanna og fleiri fyrirtækja er að skila okkur enn meiri tekjum en áður var talið.

Þessar tekjur koma síðan öllu þjóðarbúinu til góða. Þetta er ástæðan fyrir því að fallega jafnaðarmanna hugsunin getur aldrei skilað þjóðinni þeim kaupmætti og velferðarþjóðfélagi sem  við lifum við í dag þrátt fyrir góðan vilja.

En þá er bara spurningin. Á þessi greining Gunnlaugar við rök að styðjast?


mbl.is Viðskiptahallinn ofmetinn um tugi milljarða?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig virkar flokkalýðræði?

Hingað til hef ég alltaf haldið að flokkalýðræði virkaði þannig að flokkar mynduðust um einhverja stefnur. Hver og einn flokkur hefði sína sýn á það hvernig þjóðfélagið ætti að virka og hvað þyrfti að gera til þess að svo mætti verða.

Samfylkingin hefur tekið allt annan pól í hæðina. Fólk innan hennar auglýsir hana sem lýðræðislegan flokk þar sem að meirihluti (virðist vera meirhluti landsmanna en ekki flokksmeðlima) ráði hverju sinni. Það veldur því að flestum virðist hún vera stefnulaust rekald sem fylgir eingöngu nýjustu skoðanakönnunum.

Er það það sem kjósendur vilja? Að flokkar hætti að mynda sér fasta stefnu til að fara eftir?

Það virðist ekki vera ef marka má skoðanakannanir. Flokkarnir tveir sem fylgja einhverri raunverulegri stefnu gengur vel í skoðanakönnunum. Sjálfstæðisflokkur mælist sem lang stærsti flokkur landsins og vg sækir ört á með hverri skoðanakönnuninni á kostnað, að því er virðist, samfylkingarinnar.

Þegar stofnaður er flokkur bara til þess að stofnaður sé flokkur er ekki mikils að vænta, allavega ekki til lengri tíma, dæmi: samfylkingin. Hins vegar ef nokkrar persónur koma saman og stofna flokk um einhver viss málefni eða vissa stefnu er ekki ólíklegt að þær persónur verði fljótar að finna fólk í þjóðfélaginu sem hugsar á svipuðum nótum og flokkur þeirra væri líklegri til að vaxa, dæmi: VG.

Samfylkingarfólk virðist reyndar hafa komist að sömu niðurstöðu og ég þar sem að nú er reynt að sýna þjóðinni fram á að samfylkingin hafi mikla og góða stefnu. Erfitt hefur verið enn sem komið er að koma þjóðinni í skilning um það en enn eru nokkrir mánuðir til stefnu fram að kosningum. Það verður spennandi að sjá hvernig gengur þangað til Smile


Verð ég brenndur?

Alltaf gaman að kíkja á síðuna hjá Hrafni Jökulssyni, alltaf með nýjustu fréttirnar og skemmtilega fróðleiksmola að maður tali nú ekki um að þar getur maður fylgst með skák í beinni þar sem tveir af okkar bestu skákmönnum bítast af kappi Wink.

Einn fróðleiksmolinn á síðunni hjá honum sem ég las í morgun var um Halldór Finnbogason sem dæmdur var til dauða og var brenndur á báli fyrir að snúa faðir vorinu og fleiru svipuðu upp á djöfulinn.

Þegar ég las þetta sá ég að ég mætti teljast nokkuð heppinn fyrir að hljóta ekki sömu örlög fyrir nokkrum árum þar sem að ég gerðist sekur um svipað athæfi.

Það var á þeim tímum þegar Persaflóastríðið stóð sem hæst. Ég bjó enn hjá móður minni á Akranesi. Hún hafði farið út á land að vinna svo ég var einn heima í einhverjar vikur.

Bönkuðu þá upp á hjá mér tveir trúboðar úr söfnuði votta jehóva og vildu fá að reyna að frelsa mig og þar sem ég hafði og hef mikið gaman af því að rökræða trúmál þá bauð ég þeim inn.

Þeir heimsóttu mig nokkrum sinnum og boðuðu það, eins og danski presturinn er að gera í dag, að dómsdagur væri í nánd og hver færi að vera síðastur til að frelsast og öðlast eilífa vist í paradís. Þeir fræddu mig einnig á því að drottinn hefði gefið skrattanum umboð til að stjórna jörðinni í nokkrar aldir til að sýna honum fram á að hann gæti það ekki. Núna væri komið að því að sá reynslutími væri upp urinn.

Eitt skiptið er þeir komu þá reyndu þeir að selja mér bók sem skýrði þetta sem þeir voru að boða og vildi ég ekkert af þeim kaupa nema ég fengi fyrst að lesa bókina og varð það úr að þeir skildu bókina eftir hjá mér til lesningar og boðuðu komu sína nokkrum dögum seinna og myndu þeir þá fara fram á að fá annað hvort bókina aftur eða einhverja aura fyrir hana.

Þegar þeir komu aftur þá hafði ég lesið bókina samviskusamlega og þegar þeir spurðu hvernig mér litist á, þá tjáði ég þeim það að eftir lesturinn hefði ég sannfærst um það að skrattinn hefði skrifað Biblíuna. Eðlilega varð þeim nokkuð um þessa fullyrðingu mína og vildu fá frekar rök fyrir þessari niðurstöðu minni. Tjáði ég þeim þá að þeir hefðu  sagt mér að Guð væri góður og sanngjarn og mér þætti ekkert sanngjarnt við það að gefa skrattanum færi á að stjórna jörðinni en gera svo allt til þess að eyðileggja fyrir honum t.d. með því að reka áróður gegn honum allan reynslutímann.

Bentu þeir mér góðfúslega á það að skrattinn væri lygari og sannað væri að margt væri satt í Biblíunni og því engin ástæða til að efast um annað sem í henni stæði en ekki væri hægt að sanna með beinum hætti. Spurði ég þá að því hvort þeir teldu skrattann ekki vera "góðan" lygara og undirförulann og töldu þeir svo vera. Benti ég þeim þá á það að bestu lygararnir segðu satt svo lengi sem hægt væri að sanna mál þeirra en svo lygju þeir restinni.

Þessi rök hjá mér féllu vægast sagt ekki í góðan jarðveg. Mennirnir tveir þustu báðir á dyr og hafa ekki sést síðan en bókin varð eftir á borðinu hjá mér.


Frjálslyndir

Mikið stuð virðist ætla að verða hjá frjálslyndum um helgina. Frjálslyndið virðist nú helst felast í því að hafa frelsi til að nýða flokksfélagana, frelsi til að rífast eins og smábörn, frelsi til að fara í fýlu og ganga í annan flokk ef menn gera ekki eins og maður vill.

Mér þótti það góðar fréttir þegar Margrét Sverrisdóttir tilkynnti að hún ætlaði að bjóða sig fram í varaformannsembætti flokksins og þótti óskaplega eðlilegt að hún hugsaði sig um að bjóða sig í formanninn eftir að núverandi formaður upplýsti alþjóð um það í Kastljósþætti að hann væri ekki viss um að geta starfað með henni ef hún inni.

Nú held ég hinsvegar að Margrét sé að grafa sína pólitísku gröf. Er að gefa því undir fótinn að hún fari í fýlu og flytji sig til einhverra andstæðinganna ef hún nær ekki kjöri. Í fyrsta lagi hlýtur það að draga úr möguleikum hennar til sigurs ef hún sýnir félögum sínum í flokknum ekki meiri trúmennsku en þetta og í öðru lagi hefur það yfirleitt ekki aukið vinsældir pólitíkusa ef þeir skipta um flokka í hvert skipti sem þeir fara í fýlu.

Svo er nú líka spennandi að fylgjast með tilvonandi framboði ellilífeyrisfélaga og öryrkja. Greinilega sama sagan þar eins og í mörgum öðrum flokkum sem stofnaðir eru um góð málefni. Krossferðin snýst upp í valdabaráttu nokkura einstaklinga.


Ekki manninum að kenna!

Sagt var frá því í fréttum sjónvarpsins í gær að danskur prestur teldi að það væri ekki manninum að kenna og hans mengun þessi svokölluðu gróðurhúsaáhrif. Hann bendir á að í Bíblíunni segir að rétt fyrir dómsdag muni verða miklar náttúruhamfarir, veður verði vályndari en áður og jarðskjálftar verði tíðir.

Hann segir að dómsdagur sé í nánd en þeir sem fylgi Jesú séu óhultir. Þeim verði búin paradís að hörmungunum loknum.

Er þá hræddur um að ég þurfi þá að hafa áhyggjur þar sem að ég tilheyri engu trúfélagi og get ekki skilið Biblíuna á nálægt því sama hátt og nokkurt þeirra trúfélaga sem ég þekki til Crying.

Það gengur sennilega ekki heldur að allir verði í paradís Errm


Fast þeir sóttu......

Hjálmar Árnason var í fréttum núna áðan. Hann var spurður að því afhverju suðurnesjamönnum hafi gengið svona illa í prófkjörum. Nefndi hann tvær hugsanlegar ástæður. Önnur var sú að suðurnesjamenn hefðu ekki vit á að standa saman og hin var sú að suðurnesjamenn sæktu sjóinn en aðrir sunnlendingar kynnu að smala af fjalli.

Finnst hann hafa gleymt að nefna líklegustu ástæðuna. Hún er sú að suðurnesjamenn hafa kannski þann þroska að bera að kjósa hæfileikaríkasta fólkið burt séð frá því hvar það býr. Ef það er ástæðan mættu fleiri taka sér þá til fyrirmyndar.


Útstrikanir

Árni Johnsen heldur öðru sæti á lista sjálfstæðismanna á Suðurlandi og eru margir ósáttir við það.

Ég held að ekkert annað hafi verið hægt að gera í stöðunni. Það var vilji kjósenda að Árni yrði í öðru sæti við það verða menn að sætta sig, eða hvað?????

Það er ein leið enn til fyrir þá sem ósáttir eru og það er að kjósa sjálfstæðisflokkinn í vor og strika út nafn ÁJ. Ef nógu margir sameinast um það þá er karlinn úti.

Í ljósi þessa vil ég skora á ykkur sem viljið Árna Johnsen á þing að kjósa sjálfstæðisflokkinn en ykkur sem viljið hann ekki á þing skora ég á að kjósa sjálfstæðisflokkinn og strika hann út. Kosningarnar geta ekki farið illa ef þið takið áskoruninni Wink


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Dúddi bóndi

Ágúst Dalkvist
Ágúst Dalkvist

Hin hliðin :) Vonandi finnið þið eitthvað sem þið getið verið ósammála mér um ;)

 

Spurt er

Ætlar þú að fyrirgefa, taka ábyrgð á eigin gerðum og standa með öðrum íslendingum að vinna sig út úr kreppunni?
Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband