Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Vonlausar!

Oft hefur íslenska kýrin verið dæmd vonlaus og engin von fyrir bændur að þjóna markaðnum sæmandi með ekki betra framleiðslutæki en þetta.

Nú síðast var það það að henni væri að fækka svo að hún gæti ekki framleitt í þá auknu sölu sem hefur verið undan farin misseri. Hún entist of stutt og of fáar kvígur fæddust lifandi til að hægt væri að fjölga henni.

Í síðasta bændablaði er hins vegar fyrirsögn "Mjólkurkúm fjölgar" og segir í greininni að henni hafi fjölgaði um nærri 1000 á síðasta ári. Bændur hafa náð því aftur að framleiða á innanlandsmarkað eins og eftirspurn er fyrir og von er til að hægt verði að þjóna erlendum mörkuðum í meiru mæli á næstu misserum.

Einhverjir hafa verið til þess að benda á að bændur hafi látið allar kýr lifa, hversu lítið sem þær mjólka, til að geta þjónað markaðnum. Það er klárlega satt en samt sem áður jókst meðalnyt íslensku kýrinnar á síðasta ári sem segir manni að bændur eru enn að ná miklum framförum í ræktun kýrinnar og fóðrun.

Þegar borin eru saman kúakyn á milli landa gleymist oft að skoða með það markaðsumhverfi sem bændur í hverju landi búa við. Ef ekki hefði komið til þessi aukna sala í mjólkurafurðum hér á Íslandi síðustu ár þá hefðu íslenskir bændur ekki fjölgað kúnum eins og raun ber vitni, heldur skorið fyrr úr gallagripina sem hefði aftur leitt til þess að mjólkurskýrslur hefðu sýnt meiri aukningu á meðalnyt en annars er en meðalaldur gripanna hefði aftur á móti lækkað.

Ef íslenskir bændur sína smá þolinmæði í ræktun kýrinnar þá eiga þeir enn eftir að ná miklum árangri með hana og halda allri þeirri sérstöðu sem þeir nú hafa vegna kúakynsins í stað þess að líta bara á þann mögulega gróða sem hægt væri að hafa í dag, með því að flytja inn önnur kúakyn, á kostnað framtíðarinnar.


Hard rock and water

Var að horfa á þátt í sjónvarpinu "klappir og vatn" sem rithöfundur frá Nýfundnalandi gerði og bar þar saman aðstæður þar og á Íslandi.

Að mínu áliti er þetta þáttur sem ætti að sýna öllum krökkum sem eru að útskrifast úr grunnskóla til að efla sjálfstæðisvitund þeirra.

Í þættinum kom fram að íbúar Nýfundnalands ákváðu árið 1949 að verða fylki í Kanada og veita þeim öll yfirráð yfir sínum auðlindum, fimm árum eftir að íslendingar ákváðu að verða sjálfstæð þjóð. Gríðarlegur munur er á þjóðunum í dag. Fjórðungur nýfundlendinga er atvinnulaus og þriðjungur ólæs meðan að hvoru tveggja þekkist varla hér á landi. Hún (rithöfundurinn) fór í verslanir á Nýfundnalandi og þurfti að leita lengi þar til hún fann vöru sem framleidd er þar í landi meðan að mjög stór hluti vara í verslunum hér á landi er framleiddur hér.

Auðlindir nýfundlendinga eru þó miklu meiri en okkar íslendinga. Fyrir utan fiskimiðin er þar hellingur af olíu og fleiru því sem ætti að geta komið þeim til góða og gert þá með ríkari þjóðum heims. Í stað þess er fiskurinn ofveiddur af öðrum þjóðum í þeirra lögsögu vegna þess að Kanadamenn eru daufir við að verja hann og tekjur af öðrum auðlindum renna til kanadíska ríkisins og skilar sér ekki nema að litlu leiti heim aftur. Margir viðmælendur þáttarins og rithöfundurinn sjálfur vildu meina að ástæðan fyrir þessum mun á Íslandi og Nýfundnalandi væri sú að á Íslandi veru ákvarðanirnar teknar af heimamönnum á meðan að á Nýfundnalandi voru ákvarðanirnar teknar af fólki víðs fjarri sem ekki þekkti til og hafði engra eða lítilla hagsmuna að gæta.

Maður fór ósjálfrátt að hugsa um það hvernig það yrði ef við myndum ganga í ESB og flytja með því ákvörðunarvald í mörgum mikilvægum málaflokkum út til Brussel. Myndi það koma okkur í svipaða stöðu og nýfundlendinga eru í dag?

Mikið er talað um það að þá fengjum við völd innan sambandsins þar sem að við fengjum nokkra þingmenn inn á Evrópuþingið. Nýfundlendingar fá 7 þingmenn í Kanada og þeir geta sagt okkur hvaða völd það veitir þeim en það er akkúrat engin. Svo fáir í stórum hópi gera ekki mikið fyrir þjóð sína þó þau leggi sig öll fram.

Athygli mína vakti að tekið var viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í þessum þætti og ekki nefndi hún þar að hún vildi skoða það að framselja hluta af okkar sjálfstæði til Brussel. Fannst eiginlega bara skondið að hún hafi verið valin í þennan þátt en ekki einhver t.d. frá VG eða D sem hafa lýst því yfir að ekki komi til greina annað en að halda öllu því sjálfstæði sem við höfum áunnið okkur með áratuga baráttu.


Auglýsing!

Er ekki hægt að auglýsa þetta aðeins betur, ekki er víst að allir lesi mbl.is. Þetta hlýtur að koma í fréttum útvarps og sjónvarps á öllum stöðvum svo það sé nú alveg öruggt að allir viti af þessu og geti "leikið" með.

Held að það hafi verið gáfulegra að leyfa lögreglunni að vinna sitt verk. Koma þessum "leik" fyrir kattarnef og ná þeim sem komu honum á netið. Fáránlegt þegar fréttastofur landsins taka að sér að auglýsa allan þann viðbjóð sem umgengst í þjóðfélaginu.


mbl.is Nauðgunarþjálfun á Netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gefur ekki upp afstöðu sína!

Gunnar Svavarsson segist hafa sóst eftir ráðherrastól en ekki fengið vegna "jafnréttisstefnu" flokksins. Það hlýtur að vera mikið jafnrétti í því að velja annað kynið frekar en hitt.

Eitt er í þessari frétt mbl.is sem kemur minna á óvart en nokkuð annað og það er þessi fallega setning "Hann segist ekki vilja gefa upp um afstöðu sína til þessarar niðurröðunar". Eitthvað er þetta nú kunnuglegt eftir íbúakosninguna í Hafnarfirði um álverið í Straumsvík nú í mars. Segir manni kannski bara að þær konur sem fengu ráðherrastól hljóti að vera hæfari ráðherrar en þessi ágæti maður.


mbl.is Gunnar sóttist eftir ráðherraembætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarsáttmálinn

 

"Ríkisstjórnin leggur áherslu á mikilvægi öflugs landbúnaðar og hágæðaframleiðslu á matvælum í landinu. Unnið verði að endurskoðun landbúnaðarkerfisins með það fyrir augum að auka frelsi, bæta stöðu bænda og lækka verð til neytenda."

Svo mörg voru þau orð í stjórnarsáttmálanum sem varðar landbúnaðinn.

Þó að þau hafi ekki verið fleiri þá er margt gott og eftirtektarvert í sáttmálanum. Meiri áheyrslu á að leggja á umhverfismál en verið hefur. Tannaeftirlit barna verður eflt, sérstök nefnd verður sett í það að fylgjast með þróun Evrópusambandsins og meta kosti og galla þess að sækja um aðild á hverjum tíma. Fleira mætti telja en ég skora bara á alla að lesa sáttmálann yfir en hann má nálgast hér.

Gleðilegustu tíðindin eru þau að taka á á málefnum aldraðra og það ekki bara einhvern tíma á kjörtímabilinu heldur strax. Geir ætlar að kalla saman þing núna í júní og á þá að taka á þessum málum.

Vel byrjar það, vonandi verður framhaldið í stíl.

Ný skoðanakönnun hér á síðunni.


mbl.is Alþingi kallað saman í næstu viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunverulegt ráðherralið

Spáin mín hefði getað verið betri hvað varðar ráðherraliðið. Ég spáði rétt með níu ráðherraefni af tólf og setti fimm þeirra í rétt ráðuneyti Woundering, gengur bara betur eftir fjögur ár Grin

Annars er ég að mestu leiti ánægður með þetta ráðherralið, svona miðað við að það voru þessir tveir flokkar sem verða í stjórn. Helst þó að ég skil ekki afhverju er verið að slíta í sundur aftur viðskipta- og iðnaðarráðuneyti og setja landbúnaðarráðuneytið í staðinn undir sjávarútvegsráðuneytið þó ég treysti alveg Einari til að gera góða hluti fyrir bændur.

Til hamingju öll sömul með nýja ríkisstjórn og megi hún reynast okkur öllum vel.

Forsætisráðherra verður Geir H. Haarde,
fjármálaráðherra Árni Mathiesen,
menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir,
dómsmálaráðherra Björn Bjarnason,
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Einar K. Guðfinnsson,
heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson og Sturla Böðvarsson verður forseti Alþingis.

utanríkisráðherra: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ,
iðnaðar- og byggðamálaráðherra: Össur Skarphéðinsson,
viðskiptaráðherra: Björgvin G. Sigurðsson,
félagsmálaráðherra: Jóhanna Sigurðardóttir,
umhverfisráðherra: Þórunn Sveinbjarnardóttir ,
samgönguráðherra:Kristján Möller.

 


Og svo stólarnir

Björn Ingi Hrafnsson og Óli Björn Kárason voru í Kastljós þætti kvöldsins og voru þeir fengnir til að spá í hverjir myndu fá ráðherrastól ef Samfylking og Sjálfsstæðisflokkur ná saman.

Þeir voru nokkuð sammála í flestum atriðum. Björn Ingi veðjaði á Sollu, Össur, Björgvin, Þórunni, Jóhönnu og Gunnar Svavarsson hjá Samfó en Óli veðjaði á Kristján Möller í staðinn fyrir Björgvin og hafði Þórunni ekki á sínum lista þar sem hann spáði því að Samfó fengi 5 ráðuneyti en D fengi 7.

Athygli hefur vakið hvað Ágúst Ólafur varaformaður Samfylkingarinnar er sjaldan nefndur þegar kemur að áhrifa stöðum í nafni Samfylkingar. Menn virðast ekki veðja á hann sem ráðherra efni og ekki tekur hann þátt í stjórnarmyndunarviðræðunum, heldur kemur Össur þar inn í staðinn. Ekki kæmi mér á óvart þó Össur myndi bjóða sig fram gegn honum á næsta landsþingi. Hann hefði sennilega gert það núna síðast ef ekki hefðu verið kosningar þetta vorið.

En að sjálfsstæðismönnum. Björn Ingi veðjaði á Geir, Þorgerði, Bjarna Ben, Kristján Júl, Árna Matt og Guðlaug Þór og að Björn Bjarna yrði forseti alþingis. Óli Björn vildi meina að Kristján yrði þingflokksformaður en fengi ekki ráðherrastól. Björn fengi stól og Einar Guðfinns og Sturla yrði forseti alþingis. Öðru leiti voru listar þeirra eins.

Erfitt er að spá í hverjir fá stóla og hverjir ekki nema þá að gefa sér hvaða ráðuneyti hvor flokkur fær.

Forsætisráðherra: Geir Hilmar
Fjármálaráðherra: Árni Matt
Utanríkisráðherra: Ingibjörg Sólrún
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra: Gunnar Svavarsson
Sjávarútvegsráðherra: Össur Skarphéðinsson
Félagsmálaráðherra: Guðlaugur Þór
Landbúnaðarráðherra: Kristján Möller
Menntamálaráðherra: Þorgerður Katrín
Umhverfisráðherra: Þórunn Sveinbjarnardóttir
Dóms- og kirkjumálaráðherra: Bjarni Benediktsson
Samgönguráðherra: Sturla Böðvarsson
Heilbrigðisráðherra: Jóhanna Sigurðardóttir

Forseti Alþingis: Björn Bjarna
Þingflokksformaður D: Kristján Júl
Þingflokksformaður S: Ágúst Ólafur

Þetta er mín spá, komið með ykkar Wink

Ég var að velta fyrir mér, hér á blogginu fyrir nokkru, stöðu Framsóknar og formanns hennar ef hún yrði utan stjórnar. Spáði ég því þar að Jón gæti ekki setið lengur sem formaður og líklegast yrði að Guðni og Valgerður myndu bítast um hnossið. Óli Björn kom með ansi góðan vinkil á þá umræðu í Kastljósþætti kvöldsins og benti á að Björn Ingi væri kandídat í það embætti. Hann væri sennilega sá efnilegasti í það nú þegar þarf að fara að byggja upp. Gáfulegt væri að setja ungan og efnilegan pólitíkus í forystusæti flokksins sem myndi kannski höfða frekast til unga fólksins.


mbl.is Össur: Unnið að samræmingu þess helsta og besta úr stefnu flokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk kærlega

Ég þakka fráfarandi ríkisstjórn kærlega fyrir gott starf síðustu 12 ár. Sennilega má fullyrða það að engin ríkisstjórn hefur náð viðlíka árangri og sú sem er að fara frá nú.

Nú er bara að vona að næsta ríkisstjórn verði undir forystu sjálfsstæðismanna líka.

Ef framsókn verður ekki í næstu ríkisstjórn má vænta einhverra hrókeringa innan raða hennar. Ljóst er að hvorki formaðurinn eða ritarinn náðu á þing í síðustu kosningum og hlýtur, ef fer fram sem horfir, Jón að segja af sér formennsku. Hver mun þá taka við?

Siv var mjög tæp að komast á þing svo ekki er víst að hún sé sterkur kandídat í það embætti. Jónína Bjartmarz er utan þings eins og núverandi formaður, annars hefði ég talið hana sterkasta kost framsóknar. Þá eru Guðni varaformaður og Valgerður Sverris eftir. Ljóst er að þegar Halldór Ásgrímsson yfirgaf hina sökkvandi skútu framsóknar þá lagði hann mikið kapp á að Guðni tæki ekki við en nú virðist hann vera með mörg tromp á hendi. Kannski eiga þau Valgerður eftir að bítast um stólinn.

Það eru allavega spennandi tímar framundan og svo er bara að vona að þeir verði góðir líka Smile


mbl.is Ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi stjórnarflokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pælingar Ómars

Ómar Ragnarsson er svekktur yfir niðurstöðum kosninganna á laugardaginn, eðlilega þar sem Íslandshreyfingin var ekki við það að koma manni á þing.

Ómar hefur kennt kosningakerfinu um slæmt gengi síns flokks. Hann hefur bent á að fylgi Íslandshreyfingarinnar hefði dugað til að koma tveimur mönnum á þing en 5% reglan hafi komið í veg fyrir það og því vill hann leggja niður þessa reglu. Ekki er það mjög vel hugsað hjá Ómari þar sem hann virðist ekki gera sér grein fyrir því hvað myndi geta gerst þá.

Mjög margir minnihluta hópar ættu þá kost á að stofna stjórnmálaflokk og koma 1-2 mönnum á þing og hvernig verður þá að mynda ríkisstjórn? Miklar líkur yrðu á því að völdin yrðu hjá einhverjum þessara minnihluta hópa þar sem þeir gætu haft úrslitavald í stjórnarsamstarfi. Oft hefur verið skammast yfir Framsóknarflokknum hvað þetta varðar, að hann hafi oft haft meiri völd en fylgi hans gefur honum tilefni til, en hann hefur þó oft haft yfir 10 þingmenn. Ég segi því, höldum þessari 5% reglu inni.

Ómar hefur líka sett út á það fé sem stjórnmálaflokkarnir sem eru á þingi fá úr opinberum sjóðum. Get ég vel tekið undir það með honum. Sé ekki nokkra ástæðu fyrir því að Sjálfsstæðisflokkurinn, Vinstri græn eða nokkrir aðrir flokkar fái meira fé frá ríkinu en þeir flokkar sem bjóða fram en eiga ekki fólk á þingi.

Eitt enn sem Ómar hefur nefnt eftir kosningarnar og það er að hann vill meina að það sé ekki sér að þakka/kenna að ríkisstjórnin heldur velli. Honum finnst slæmt þegar verið er að bera á hann þessar sakir og spyr á móti hvort það megi ekki allir bjóða sig fram.

Auðvitað mega allir bjóða sig fram. En ef það er ekki einungis valdagræðgi sem rekur fólk út í framboð þá verður það að velta fyrir sér hvort það sé baráttumálum þeirra til framdráttar að mynda nýjan stjórnmálaflokk.

Ljóst er að forsvarsmenn Íslandshreyfingarinnar hafa ekki fjölgað "grænum" mönnum á þingi og að öllum líkindum hafa þeir fækkað þeim. Þau sem kusu Íslandshreyfinguna hafa væntanlega látið fyrst og fremst náttúruverndunarsjónarmið stjórna því hverja þau kusu. Væntanlega hefðu flest þeirra kosið VG ef Íslandshreyfingin hefði ekki komið fram og þá hefði stjórnin fallið.

Ef við tökum t.d. sem dæmi Kvennalistann forðum og svo Frjálslynda líka. Kvennalistinn var myndaður um málefni sem þá var ekki mikið í öðrum flokkum, það er það nú enda Kvennalistinn aflagður. Frjálslyndir var eini flokkurinn fyrir þessar kosningar sem vildi hefta verulega innflutning erlends vinnuafls og skaðaði því ekki sinn málflutning með því að bjóða fram. Best væri fyrir Íslandshreyfinguna að hætta störfum sem sérstakur stjórnmálaflokkur og sameinast þeim sem þegar eru á þingi og berjast fyrir umhverfisvernd.

En takk æðislega samt Ómar og Margrét að framlengja líf þessarar ríkisstjórnar Wink


Hélt hún?

Nú er gríðarlega spennandi kosninganótt lokið. Stjórnin hélt og var fallin á víxl í alla nótt, þingmenn inni og úti og enginn vissi hvernig þessu myndi ljúka fyrr en síðustu tölur komu í hús.

Að mínu mati er stjórnin fallin. Tæplega helmingur kjósenda kaus stjórnarflokkana og væri siðferðislega rétt af Geir H. að skoða aðra kosti en framsókn. Ef síðan ekki nást samningar við samfylkingu eða vg þá má skoða aftur stjórnarsamstarf núverandi stjórnarflokka.

Sigurvegari kosninganna eru Vinstri-Græn og óska ég þeim ynnilega til hamingju með það. Einnig má óska sjálfsstæðismönnum til hamingju með sinn árangur og þá sérstaklega Þorgerði Katrínu og öðrum frambjóðendum sjálfsstæðismanna í Kraganum.

Fallistar kosninganna eru örugglega Framsókn og Samfylking. Framsókn missti mjög mikið fylgi og er ljóst að kjósendur óska þess ekki að þeir haldi áfram í ríkisstjórn. Samfylkingin fékk slæma útreið miðað við að hafa verið í stjórnarandstöðu. Það að stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, sem þar að auki er ætlað að vera mótvægi við sjálfstæðismenn, nær ekki að auka fylgi sitt hlýtur að vera hræðilega slæmt fyrir þau og þeirra forystu. Spái því þó að góðir tímar séu framundan hjá þeim ef þau taka á sínum málum. Gríðarlega mikið af ungu og hæfileikaríku fólki er í Samfylkingunni og ef samfylkingarfólki ber gæfa til þess að láta þeim eftir stjórn flokksins, þá verður hún til alls líkleg í næstu kosningum.

Frjálslyndir héldu nokkuð sínu og verður það að teljast nokkuð gott af "fimmta" flokknum í þessu fjórflokka landslagi sem lengi hefur verið við lýði hér á landi. Ljóst er þó að kjör Jóns Magnússonar á þing veldur því að engum hinna flokkana mun hugnast að hafa þá í stjórn, en það skiptir sennilega litlu máli þar sem að þeir hefðu sennilega ekki hvort sem er komist í stjórn.

Nú er mesta spennan að sjá hvort Björn Bjarnason og Árni Johnsen hafa fallið um sæti á framboðslistum sjálfsstæðismanna við útstrikanir í kosningunum í gær. Björn Bjarnason er alltaf á þingi þó hann falli um eitt eða tvö sæti en er náttúrulega ekkert ráðherraefni sjálfsstæðismanna ef það hefur orðið.

Ef Árni Johnsen fellur um tvö sæti, eins og gefið var í skin í nótt á kosningavöku sjónvarpsins að gæti orðið, þá er hann ekki á þingi og hans sæti tæki Unnur Brá Konráðsdóttir sem, að öðrum ólöstuðum, er helsta framtíðarvon sjálfsstæðismanna í suður kjördæmi.


mbl.is Ríkisstjórnin hélt velli með minnsta mun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Dúddi bóndi

Ágúst Dalkvist
Ágúst Dalkvist

Hin hliðin :) Vonandi finnið þið eitthvað sem þið getið verið ósammála mér um ;)

 

Spurt er

Ætlar þú að fyrirgefa, taka ábyrgð á eigin gerðum og standa með öðrum íslendingum að vinna sig út úr kreppunni?
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband