Nokkur atriði sem vert er að skoða fyrir kosningar.

Það eru nokkur atriði sem vert er að skoða fyrir kosningar.

1. Ég veit að það er mjög margt fólk sem er að fara að kjósa núna á laugardaginn sem man ekki hvernig ástandið var í landinu þegar þessi ríkisstjórn tók við. Ég skora á fólk að kynna sér þá tíma því þá mun það sjá hvað þessi ríkisstjórn hefur bætt þjóðfélagið gríðarlega á þeim tíma sem hún hefur verið við völd. Þið sem kynnið ykkur þessi mál munuð greiða þessari ríkisstjórn ykkar atkvæði.

2. Kosningaloforð Samfylkingarinnar eru ekki í neinum tengslum við raunveruleikann. Það verður hægt að uppfylla megnið af þeim ef allt fer á besta veg en það má ekkert bregða út af til þess að þau verði að svíkja stærstan hluta af þeim. Til hvers að kjósa flokk sem sýnir með sínum loforðalista að honum er ekki treystandi?

3. Fyrir ykkur sem viljið ekki kynna ykkur hvernig þjóðfélagið var áður en þessi stjórn komst til valda og viljið ekki styðja hana til áframhaldandi góðra verka. Passið ykkur á því að dreyfa ekki kröftum ykkar of víða. Miðað við kannanir í dag eru gríðarlega mörg atkvæði að falla dauð. Ljóst er að Íslandshreyfingin og Frjálslyndir verða aldrei með það mikið fylgi sem þarf til til að geta látið eitthvað að sér kveða. Væri ekki álytlegra að sameinast um einn eða tvo stjórnarandstöðuflokka sem hefðu þá meira vald, ættu þá meiri möguleika á að fá sæti í næstu ríkisstjórn eða vera þá öflugri stjórnarandstöðuflokkur en annars yrði.

4. Eðlilegt er þegar margt fólk sameinast í stórum flokki að öllum líki ekki við alla frambjóðendur flokkana. Ekki hika við að strika út þau nöfn sem þið viljið ekki á þing. Með því gefið þið skýr skilaboð um hvað þið viljið og verður það leiðbeinandi fyrir verk þingmannana á næsta kjörtímabili.

Mikill árangur hefur náðst í þjóðfélaginu síðustu kjörtímabil. Greiðum atkvæði okkar af ábyrgð, stjórn landsins er ekki leikur og skiptir okkur öll miklu máli að vel takist til áfram.

Fyrir ykkur sem eruð svo óákveðin má svo benda á síðuna http://xhvad.bifrost.is/ . Þar getið þið fengið hjálp við að finna út hvað þið eigið að kjósa LoL. Það vill svo ótrúlega til að útreikningur þessarar síðu segir að, miðað við mínar skoðanir, þá eigi ég að krossa við D Wink


mbl.is Fylgi Samfylkingar og Framsóknarflokks eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dofri Hermannsson

Sæll frændi

Þetta er athyglisverð tilraun hjá þér - að hræða fólk frá því að kjósa Samfylkinguna og reyna að gera það spennandi að kjósa D-listann með því að benda fólki á að þá hefur það tækifæri til að strika Árna Johnsen út af listanum.

Dáldið skemmtilegt sölutrikk - og virkaði merkilega með Eyþór í fyrra!

Dofri Hermannsson, 8.5.2007 kl. 13:39

2 Smámynd: Snæþór Sigurbjörn Halldórsson

Góður pistill.

Snæþór Sigurbjörn Halldórsson, 8.5.2007 kl. 13:43

3 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Dofri:

Sæll frændi

Nú misskilur þú mig mikið . Ég var ekki að gera spennandi að krossa við D, var kannski einmitt að segja að það væri ekki spennandi heldur myndi það leiða til öruggs árangurs. Heldur var ég ekki að hræða fólk frá samfylkingunni, segi ekki að hún muni setja allt á hausinn ef hún kemst til valda heldur að hún muni svíkja loforðin til að setja ekki allt á hausinn. Ég var þess vegna aðeins að benda fólki á að láta ekki glepjast af loforðalistanum

Hvort þetta er sölutrikk eða ekki þá vona ég frændi að þetta virki hjá mér

Snæþór:

Takk kærlega

Ragnar:

Það getur vel verið að ég sé frjálslyndur jafnaðarmaður en þá stendur líka sjálfsstæðisflokkurinn fyrir frjálslyndri jafnaðarmennsku og þú þá í vitlausum flokki

Að mörgu leiti erum við Dofri frændi minn sammála en þó er margt líka þar sem okkur greinir á en ég vona að það eigi við alla, svo maður hafi nú um eitthvað að tala þegar maður hittir fólkið

Ágúst Dalkvist, 8.5.2007 kl. 15:52

4 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Kannski samfylkingin verði þá ekki í næstu ríkisstjórn

Ágúst Dalkvist, 8.5.2007 kl. 18:55

5 Smámynd: Tjörvi Dýrfjörð

Sæll Ágúst
Mér reiknast til að þú hafir verið 21 árs þegar Viðeyjarstjórnin var mynduð af Alþýðuflokk og Sjálfstæðisflokki árið ´91 þar á undan hafði setið þriggja flokka stjórn Alþýðuflokks Framsóknar og Alþýðubandalags undir forsæti Steingríms Hermannsonar eftir að slitnað hafði uppúr samstarfi Alþýðu  Framsóknar og Sjálfstæðisflokki undir forsæti Þorstein Pálsonar núverandi ritstjóra Fréttablaðsins en þá hefur þú verið 16 ára þegar sú stjórn var mynduð eftir að frjálshyggjumennirnir höfðu gefist uppá að takast á við þann vanda sem þá ríkti í efnahagmálum og Ólafur Ragnar ásamt Einari Oddi (Sjálfstæðismanni að vestan)og Alþýðusambandinu komu á Þjóðarsáttinni sem skapaði þann stöðugleika sem næsta ríkistjórn þurfti til að koma EES samningum á sem losaði okkur undan viðjum sambandsin sáluga og gerði mönnum í atvinnulífinu kleyft að ganga á og höggva arma kolkrabbans af einn í einu og á endanum keyptur upp af manni sem kolkrabbinn hafði gert nánast að öreiga smánað og hrekið úr landi með sín viðskipti stjórnin þar á undan ´83-´87 var stjórn Sjálfstæðis og framsóknarflokks undir forsæti Steingríms Hermanns og þar á undan var Óli Jó og Geir Hallgríms frá ´79-´81 en þá hefur þú verið 9 ára þegar sú stjórn var mynduð
semsagt eina vinstri stjónrin sem þú getur vitnað til af eigin raun sat í tvö ár ´89-´91 og er sú stjórn sem náði taumhaldi á óðaverðbólgu og minkandi kaupmátt og menn viðurkenna að hafi skapað þann grundvöll sem núverandi ríkisstjórn hefur haft til að athafna sig en er að renna á rassin með og ástandið í dag minnir að mörgu leiti á árin 87-89 þó margt hafi breyst og þá sérstaklega í frelsi atvinnulífsins sem EES samningar Jóns Baldvins ( vinstri manns)færðu okkur. þannig að þegar þú og aðrir stuttbuxnapólitíkusr fara að tjá ykkur um efnahagsklúður vinstri manna þá get ég í sögulegu sjónarmiði síðustu 30 ára ekki tekið undir það  

Tjörvi Dýrfjörð, 8.5.2007 kl. 22:11

6 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Komdu sæll Tjörvi

Hvar sérðu í þessu bloggi mínu að ég vari við vinstri stjórn?

Það eina sem ég bendi á er að í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur aðstaða landans batnað til muna og sennilega í flestum tilfellum meira en í löndum í kringum okkur. Þegar ríkisstjórn nær slíkum árangri þá er ekki ástæða til að skipta.

Í þessu bloggi mínu hvet ég að meira að segja vinstri menn til að sameinast til að geta myndað mótvægi við hægri öfl í þjóðfélaginu í stað þess að skiptast niður á marga litla flokka sem gerir það að verkum að fjöldi atkvæða þeirra detta dauð.

Þannig að þegar gamlir pólitíkusar fara að tjá sig um rit annara og hafa gefið sér efnið fyrir fram og sjá ekki því það sem raunverulega er skrifað, gefa sér því kolrangar forsendur sem leiða til kolrangrar niðurstöðu, þá grafa þeir undan trúverðugleika eigin skrifa

Góður pistill annars hjá þér

Ágúst Dalkvist, 8.5.2007 kl. 23:11

7 Smámynd: Kristján Pétursson

Nú varð ég fyrir nokkrum vonbrygðum með þig Ágúst.Þínar sjálfstæðu pólutísku skoðanir hafa vikið til hliðar og Valhallar handbókin tekin við.Veistu það Ágúst ,að svona skrif skaða flokkinn þinn og gera ekkert gagn.Þessi hræðslupólutík fyrir einhverjum áratugum á ekki lengur við og sýnir kjánasakap.Hver á að trúa því,að kosningaloforð Samfylkingarinnar séu ekki í neinum tengslum við raunveruleikann eins og þú segir.Þetta hefði Þórbergur Þóðarson,rithöfundur kallað fíflhyggju.Um leið og skoðanakannanir sýna fylgisaukningu Samfylkingar og" niðurgang " Sjálfstæðisfl. fer kerfið ykkar allt úr skorðum.Vona að þú farir aftur í gömlu slóðina,verður aftur málefnalegur og glaður og hress.

Kristján Pétursson, 8.5.2007 kl. 23:35

8 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Er alltaf glaður og hress Kristján  og ef þú bendir mér á hvernig samfylkingin ætlar að fjármagna öll þau loforð sem hún hefur gefið þá skal ég glaður éta allt ofan í mig sem ég hef fullyrt um þau.

Enginn snefill er af hræðsluáróðri í þessu bloggi hjá mér, bendi einungis á að það gengur vel undir stjórn þessarar ríkisstjórnar (ef fólk kærir sig um að kynna sér það) og meðan að svo er þá er ástæðulaust að henda því góða út til að fá eitthvað í staðinn sem við vitum ekki hvernig virkar. Þetta kallast rökhugsun síðast þegar ég vissi Kristján.

Get heldur ekki séð að skrif mín auki eða minnki fylgi sjálfstæðisflokksins. Ég er ekki í forystusveit flokksins og heldur ekki í framboði og lýsi því einungis mínum skoðunum á þessari bloggsíðu en tala ekki fyrir nokkurn flokk.

Ágúst Dalkvist, 8.5.2007 kl. 23:49

9 Smámynd: Tjörvi Dýrfjörð

Sæll aftur
Ég bið forláts það er alveg rétt hjá þér að þú varar ekki við vinstri stjórn en þú fullyrðir að Samfylking geti ekki staðið við loforðalistann sökum þess hve dýr hann er þannig að hvort ertu að segja að samfylking ætli að svíkja eða að samfylking kunni ekki að reikna? en ástæðan að ég fór í þennann ham áðan er sú að það virðist sama hvar maður ber niður á bloggsíður íhaldsmanna það er alltaf sami söngurinn "Vinstri menn kunna ekki að fara með peninga " og vinstri stjórnir hafa ALLTAF klúðrað efnahagnum.
Ég er orðin ofboðslega leiður á málefnaþurð Sjálfstæðismanna og er ekki sammála þeim að það sé nóg að sýna myndir af GHH brosandi til að vinna kosningar.
annars vil ég hvetja alla til að lesa blað Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi Vogar sem skýrir mál mitt fullkomnlega og lágkúra íhaldsins nær nýjum lægðum. 

Tjörvi Dýrfjörð, 9.5.2007 kl. 00:02

10 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Sæll aftur Tjörvi

Engin ástæða til að biðja forláts, öll sjónarmið vel þegin á þessari síðu.

Ég veit ekki hvort Samfylkingin er að lofa einhverju sem hún ætlar að svíkja eða hvort hún kann ekki að reikna, ætla ekki að svara fyrir þann flokk frekar en aðra, en ljóst er að það verður að vera enn meira góðæri en verið hefur til að hún geti staðið við þau. Ég er viss um að hún svíkur þau frekar en að setja ríkissjóð á hausinn svo ég benti bara á að fólk skildi ekki láta glepjast af þeirra loforðalista.

Ég ætla ekkert að fullyrða um efnahagsstjórn fyrri vinstri stjórna, það verða aðrir að gera sem þekkja betur til. Hins vegar veit ég að þar sem að á að byggja upp velferðarkerfi hraðar en efnahagskerfið leyfir fara hlutirnir á þann veg að það er ekki hægt að halda uppi góðu velferðarkerfi vegna fjárskorts. Þó að vinstri menn hafi verið á móti flestum ef ekki öllum skattalækkunum ríkisstjórnarinnar þá hef ég heyrt aðila bæði samfylkingar og vinstri grænna viðurkenna mistök sín í þeim efnum svo kannski gera þeir sér orðið grein fyrir þvi hvernig best er að afla tekna og auka virkni í þjóðfélaginu.

Er t.d. að hlusta á Guðfríði Lilju í sjónvarpinu akkúrat núna þar sem hún talar um að það þurfi að stórefla samgöngur, stórefla fjarskiptatengingar, greiða niður flutninga og svo framvegis og svo framvegis eins og ríkissjóður sé botnlaus. Svona tal heillar mig ekki, þetta er falleg hugsun en gjörsamlega ábyrgðalaust tal. Fleira get ég talið upp sem ekki gengur upp í stefnum vinstri flokkana og geri það kannski seinna í nýju bloggi.

Ágúst Dalkvist, 9.5.2007 kl. 00:38

11 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Addi:

Ég segi að ykkur sé ekki treystandi til að uppfylla þau loforð sem þið hafið sett fram núna fyrir kosningarnar, merkir ekki að þið séuð óhæf í stjórn

Ég hef ekki áhyggjur af því að tekið verði af bændum til að leggja í heilbrigðis- og félagsmálapakkann. Hins vegar er ljóst að ef við eigum að geta byggt upp sterkara velferðarkerfi en er í dag, þá verðum við að gera það í samræmi við auknar tekjur ríkissjóðs. Samfylkingarfólki hefur verið víða verið bent á hvað þessi loforð þeirra kosta en þau hafa ekki bent á móti hvar þau ætla að ná í peninginn. Ef það á að eyða meir en aflað er, þá mun það ekki einungis bitna á bændum heldur öllum í þjóðfélaginu.

Hvað varðar umhyggju mína um sameiningu vinstri manna. Ég hef enga löngun til að þið sameinist en bendi á að þið segið að verk nr. eitt sé að koma núverandi stjórnarflokkum út úr ríkisstjórn en getið þó ekki sameinast um það í verki. Hvort þið haldið áfram að reyna það sem sundurleitur hópur er alfarið ykkar mál en það hefur ekki virkað hingað til og það að benda ykkur á það kemur því ekkert við að strá salti í sárin heldur að reyna að hjálpa ykkur við að græða þau.

Svo er ég alltaf til í að halda áfram stjórnarmyndunarviðræðum meðan að ekki er gerð krafa í forsætisráðherra- og fjármálaráðherrastólinn frá samningsaðilanum

Hrafnkell:

Ekki er ég hlynntur því að loka sendiráðum, hins vegar hefur verið bent á að ekki hafi verið farið sparlega við stofnun þeirra svo þar mætti ná í einhvern pening.

Gott mál að breyta eftirlaunasjóði þingmanna og ráðherra, þar er líka hægt að ná í pening, en ég treysti engum flokki frekar en öðrum til að ná í þá.

Þetta með hátæknisjúkrahúsið læt ég þá sem þekkja vel til í heilbrigðisgeiranum um að tala um hvort hægt sé að ná í pening þar. Hins vegar, ef það er hægt, þá er það eins og með eftirlaunamálið að enginn af stærri flokkunum er treystandi til að stoppa það.

Skal taka undir með þér hvað það varðar að víða þarf að laga í velferðarkerfinu. En það sem þú virðist ekki vita, eins og margir aðrir, að það hefur verið að lagfæra það undan farin ár og verður gert áfram. Er sammála því þó að það mætti gerast hraðar á sumum sviðum eins og t.d. í málum aldraðra og treysti ég öllum flokkum til að taka á því strax eftir kosningar.

XD kæru vinir ef við viljum halda áfram að hafa það gott

Ágúst Dalkvist, 9.5.2007 kl. 12:12

12 identicon

 Af hverju hef ég aldrei lesið neitt um það á þínu bloggi að bændasamningurinn sé vondur eða vafasamur samningur fyrir samfélagið?      Þessa setningu skrifar þú Addi og ég spyr er bændasamningurinn vondur eða vafasamur fyrir samfélagið Addi?? þó að ég hefði ekki verið búin að komast að því eftir að hafa lesið slatta af ykkar umræðum hér  að þú værir samfylkingarmaður þá hefði þessi setning ein og sér sagt mér það . 

Dísa (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 13:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Dúddi bóndi

Ágúst Dalkvist
Ágúst Dalkvist

Hin hliðin :) Vonandi finnið þið eitthvað sem þið getið verið ósammála mér um ;)

 

Spurt er

Ætlar þú að fyrirgefa, taka ábyrgð á eigin gerðum og standa með öðrum íslendingum að vinna sig út úr kreppunni?
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband