Færsluflokkur: Bloggar
11.7.2007 | 23:29
Glerárdalur
Þá er maður kominn heim úr sumarfríinu.
Fór norður á Akureyri og tók þar þátt í göngu sem kallast 24x24 og fær hún nafnið af því að reynt er að komast á 24 fallstinda á 24 tímum. Ekki hafði ég þá á 24 tímum heldur var 27,5 tíma að ganga hringinn í kringum dalinn, reyndar telst mér til að tindarnir séu kannski líka fleiri en 24. Lagt var af stað klukkan hálf níu á laugardagsmorgun og ég var kominn til byggða rétt fyrir hádegi daginn eftir.
11 þessara tinda eru yfir 1400 metrar yfir sjávarmáli og sá hæsti, Kerling, er yfir 1500 metrar.
Þetta er svona með því erfiðasta sem maður hefur lent í á ævinni, sérstaklega fyrir það að ég átti erfitt með að borða alla leiðina (og hafði reyndar litla lyst daginn áður líka) og þegar fór að líða á nóttina fór ég að eiga erfitt með að drekka líka þar sem ég varð bara veikur ef ég lét eitthvað í magann á mér. Spurði ég gönguspésalistana hver ástæðan væri þegar ég kom til byggða og þeir sögðu að það væri ofþreyta. Var nú ekki alveg sáttur við sjálfan mig að verða svona ofsalega þreyttur snemma í göngunni að ég gæti ekki borðað en svo á mánudeginum varð elsta dóttir mín veik í maganum og svo konan mín daginn eftir svo nú hallast ég að því að ég hafi verið með einhverja pest.
Að labba þetta lengi og þetta langt (tæpa 50 km.) án þess að borða dugði til að missa fjögur kíló svo eitthvað gott hafðist út úr því , en ef ég þekki sjálfan mig rétt þá verð ég nú snöggur að endurheimta þau .
Það tók mig, óvanan manninn, tvo daga að jafna mig í fótleggjunum eftir þessa göngu svo nú skora ég bara á ykkur öll sem hafið gaman af gönguferðum að stefna að því að vera með á næsta ári. Það er svo sannarlega þess virði. Sérstaklega ef það verður eins gott veður eins og það var nú, þetta var bara æðislegt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.6.2007 | 23:22
Heyskapur og sumarfrí
Fyrirgefið hvað ég hef verið latur að blogg upp á síðkastið.
Hefði átt að blogga síðasta sunnudag og segja ykkur frá því að ég væri byrjaður að heyja þar sem að það fyrsta var slegið þá eftir hádegið. Það síðasta af fyrri slætti var komið í plast á fimmtudagskvöldi og allt komið heim fyrir hádegi í dag. Semsagt heyskapnum lokið á viku, um 340 rúllur.
En svona til að forða ykkur frá því að vera alltaf að kíkja hér við til einskis þá ætla ég að taka mér sumarfrí frá bloggi allavega í þrjár vikur. Er að fara í göngutúr á morgun. Ætla að ganga inn að Morsárjökli að skoða skriðuna stóru sem féll þar í vor eða vetur. Ætla síðan að klára þau verk, bæði í vinnu og skóla, áður en ég fer norður í gönguna þar 7. júlí svo það verður lítið um tíma til að blogga fyrr en ég kem heim aftur.
Megi þetta vera besta sumar sem þið hafið lifað hingað til
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.6.2007 | 10:46
Árlegt mont
Skólaslit Kirkjubæjarskóla á Síðu voru í gær.
Þó skömm sé frá að segja, eftir að hafa átt börn í skólanum í 10 ár og verið í fræðslunefnd í 5 ár, þá voru þetta fyrstu skólaslitin sem ég mætti á. Varð nú að mæta núna þar sem að Mummi var að útskrifast og verð líka að mæta næstu tvö ár þar sem að Bragi útskrifast á næsta ári og Katrín árið þar á eftir.
Bragi var með 6,3 í einkunn og er það mjög svipað og hann hefur yfirleitt verið með. Hann þarf að passa sig svolítið og vera mjög duglegur næsta ár ef hann ætlar að ná öllum samræmdu prófunum á næsta ári. Hann fékk eina einkunn fyrir neðan 5 en hún var 4,5 svo hann verður bara að passa sig að gera ekki verr en núna
Katrín var með 7 í meðaleinkunn og er það örugglega það slappasta sem hún hefur verið með. Ekki er þó hægt að kvarta yfir slíkri meðaleinkunn
Mummi var með 6,8 í meðaleinkunn úr samræmdu prófunum og stóðst þau öll en hann tók öll sex prófin. Þrjú tók hann meira að segja kvalinn af tannrótarbólgu, upp dópaður og ósofinn, en náði samt.
Hann fékk 7,6 í meðaleinkunn úr skólaprófunum og er það með því betra sem hann hefur náð undan farin ár
Hann fékk verðlaun fyrir góðan árangur í samfélagsfræði og svo var hann sérstaklega verðlaunaður fyrir hvað hann hefur verið prúður, kurteis, duglegur og jákvæður þessi 10 ár sem hann hefur verið í skólanum. Oft hef ég verið montinn af börnunum mínum en aldrei eins held ég og þegar Mummi tók við síðar nefndu verðlaununum . Ekki skemmdi heldur að hann skuli hafa fengið þessi verðlaun á þeim degi sem afi hans heitinn og nafni hefði orðið áttræður hefði hann lifað.
Guðdís fékk 8,1 í meðaleinkunn og virðist hún ætla að byrja skólagönguna vel. Hún var að klára 2. bekk. Gott að hún skuli vera kominn með góðan grunn fyrir framhaldið, þá ætti það að vera léttara.
Begga var að klára 4. bekk og fékk 9,5 í meðaleinkunn. Hún tók sex próf og fékk þrjár 9ur og þrjár 10ur. Hún var samt nærri eins ósátt og Katrín þar sem að hún fékk 9 í stærðfræði og svo lágt hefur hún aldrei fengið í því fagi og fannst henni það nú bara vera falleinkunn .
Þó að börnin mín séu misánægð með niðurstöðurnar þá er hann faðir þeirra alveg í skýjunum yfir þeim og finnst þau öll hafa staðið sig með stakri prýði
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
6.6.2007 | 11:42
80 eru þau
Fyrir rúmri hálfri öld síðan keypti ungur maður jörð í Landbroti, Eystra-Hraun, og hafði miklar hugmyndir um hvað væri hægt að gera þar. Draumurinn var að reka þar verkstæði og þjónusta bændur á svæðinu.
Mjög lítið hafði verið ræktað á jörðinni og húsakostur mjög slæmur og fluttist þessi ungi maður ekki á jörðina fyrr en tveimur árum eftir að hann keypti hana.
Lítið var að gera til að geta rekið þar verkstæði eitt og sér svo maðurinn ákvað að koma sér upp búi og byggði bæði fjós og fjárhús og svo einnig íbúðarhús. Réð til sín ráðskonu sem hann síðan giftist.
Þegar þessi maður síðan dó fyrir nokkrum árum þá voru 50 ha ræktaðir á jörðinni, hann hafði byggt fjárhús, þrjú fjós um ævina, það stærsta fyrir 32 mjólkandi kýr og töluvert af geldneytum. Hann var búinn að byggja tvö verkstæði, það seinna með syni sínum sem lærði vélsmíði og starfaði með föður sínum síðustu árin. Komin voru þrjú íbúðarhús á jörðina áður en maðurinn dó. Vélageymslu hafði hann byggt, kartöflugeymslu og svo mætti áfram telja.
Hann átti sex börn með konu sinni, þrjá syni og þrjár dætur. Varð fyrir því óláni að lifa elsta son sinn, en hann dó úr krabbameini rétt rúmlega tvítugur.
Hann var alltaf tilbúinn til að aðstoða náungann og tók virkan þátt í félagsmálum.
Þessi maður hét Guðmundur Guðjónsson og var tengdafaðir minn. Hann var fæddur 6. júní 1927 og hefði því orðið áttræður í dag ef hann hefði lifað. Hann var mikilmenni í mínum huga og fáum mönnum, ef nokkrum, á ég eins margt að þakka. Svo takk enn og aftur Gummi og til hamingju með daginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.5.2007 | 17:01
Pestir og plágur
Nú er stefna hér á landi að útrýma minknum þar sem hann þykir vera plága í íslenskri náttúru og ekki hefur rebbi verið vinsæll heldur.
Ekki eru það þó þeir tveir sem ásótt hafa mig mest síðustu ár. Ein skepnu tegund hefur verið mikil plága hér í sveit núna síðustu ár. Þessi plága hefur herjað á tún bænda og stórskemmt þau þannig að uppskera hefur rýrnað verulega.
Stærsti gallinn á þessu máli er sá að þessi skepna er friðuð og bændum því gert nánast ókleift að verja sín verðmæti.
Þessi skepna er fjárans álftin. Henni hefur fjölgað mikið undan farin ár og þó er talið að hún verði að vera friðuð. Það ætti að leyfa bændum að veiða hana í túnum sínum eða selja veiðileyfi á hana þar en friða hana á öðrum svæðum. Yfirleitt er þetta ungfugl sem ekki er farinn að verpa og gæti því hentað vel á veisluborðið. Veiðin gæti því komið að meiri notum en aðeins að hreinsa úr túnum bænda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
24.5.2007 | 23:00
Skólinn
Þá er skólanum lokið í bili hjá mér og hef ég fengið einkunnirnar mínar.
Stærðfræði 6. Það er alveg skelfileg einkunn, held ég hafi aldrei fengið svo lágt í stærðfræði. Fékk t.d. 10 á haustönninni en verð bara að gera betur næst. Get þó huggað mig við það að ég var hræddur um að falla í þessum áfanga en það slapp.
Enska 6. Svipað og mátti vænta af mér en hélt samt að mér hefði gengið betur á prófinu en þetta.
Tölfræði 9
Bókfærsla 9. Það er mikið betra en ég átti skilið. Kláraði ekki nærri allt það efni sem ég átti að klára í vetur.
Þá er bara að skrá sig í sumarönnina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.5.2007 | 19:36
Sumarfríið
Ekki fara fram úr þér við að skipuleggja sumarfríið þótt þú hlakkir voða mikið til. Þessi æsingur gæti pirrað aðra svo mikið að þeir hætta við að fara með þér.
Svona hljómar stjörnuspá mín fyrir daginn í dag á mbl.is
Kom á skemmtilegum tíma. Er einmitt að undirbúa sumarfríið og hlakka rosalega til ef allt gengur eftir . Svo nú verður maður sennilega að róa sig niður ef maður tekur mark á spánni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.5.2007 | 00:30
Meira vælið!!!!
Ótrúlegt að Eiki karlinn skuli láta þetta út úr sér. Hélt að hann væri orðinn það lífsreyndur að vera ekki að gaspra í fjölmiðla rétt á meðan særindin af tapinu eru að líða hjá.
Lagið var bara einfaldlega ekki nógu gott. Það var gott bara ekki nógu gott. Það var eitt af bestu lögunum sem kepptu hér heima og þau stóðu sig vel úti.
Ég ætla ekki að fara að orðum Eika og skora á aðra að gera slíkt hið sama. Við kjósum auðvitað bara það lag sem okkur líkar best.
Eiríkur: Samsæri austantjaldsmafíu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
3.5.2007 | 23:47
Í dagsins önn
Ég var vakinn klukkan sex í morgun til að hjálpa kind sem átti í burðarerfiðleikum. Ekki var ég hissa á þeim erfiðleikum þegar ég fór að skoða kindina. Það fyrsta sem ég fann var dindill en engar voru lappirnar. Eftir ýtarlega leit þá fann ég helminginn af þeim inn í kviðarholi lambsins, þ.e.a.s. að það var ekkert fyrir neðan hækil á afturlöppunum og þær höfðu ekki vaxið út úr lambinu heldur voru bara saman lagðar inn í kviðarholinu. Þegar ég náði svo lambinu þá sá ég að það vantaði báðar klaufir á framlappirnar líka. Sem betur fer var það ekki lifandi en móðurinni og bróður heilsast vel.
Fór í fyrsta prófið í dag. Vænti þess að þetta hafi verið í fyrsta skiptið sem ég hef fallið á prófi. Svolítið fáránlegt að það skuli vera í stærðfræði, þar sem það hefur verið mín grein hingað til, fékk t.d. 10 í henni fyrir áramót. En svona getur þetta farið þegar maður hefur ekki tíma til að stunda námið eins og maður ætti að gera. Vona þó að ég hafi náð að skríða yfir 5 en nú er bara að bíða og sjá.
Fer svo í tvö próf á morgun, í ensku og bókfærslu. Vona að þau eigi eftir að ganga betur.
Já, svona leið nú dagurinn hjá bóndanum og saklausa skóladrengnum fyrir utan fundi, skítkeyrslu, mjaltir, nám og sitt hvað fleira
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
19.4.2007 | 19:54
Fara og koma
Ekkert er sennilega eins einmannalegt í lífinu og enginn sakni manns þó maður hverfi í langan tíma. Tók eftir því að Vala bloggvinkona er horfin og allir hennar frábæru pistlar . Vona að bloggið hafi bara bilað hjá henni og hún sé ekki hætt að blogga. Vona allavega að ekkert alvarlegt hafi gerst.
Vil allavega að hún viti ef hún kíkir hér við enn að hennar er sárt saknað og hennar mannbætandi pistla .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Spurt er
Færsluflokkar
Bloggvinir
- Jóhanna Fríða Dalkvist
- Laufey Ólafsdóttir
- Kristján Pétursson
- Dofri Hermannsson
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Björn Heiðdal
- Stefán Friðrik Stefánsson
- Anton Þór Harðarson
- Bjarni Harðarson
- Guðmundur Ragnar Björnsson
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Júlíus Valsson
- Guðmundur H. Bragason
- Eygló Þóra Harðardóttir
- Tómas Þóroddsson
- Ólafur fannberg
- Guðsteinn Haukur Barkarson
- Sigurður Egill Þorvaldsson
- Benedikt Halldórsson
- Aprílrós
- Bwahahaha...