Kuldaþol íslendinga

+15°C
Fólkið á Spáni notar kuldaúlpur og þykka vettlinga.

Íslendingar liggja í sólbaði.

+10°C
Frakkar reyna af vanmætti að fá kyndinguna í gang.

Íslendingar planta blómum í garðana sína.

+5°C
Bílar á Ítalíu neita að fara í gang.

Íslendingar fara að gamni sínu í bíltúr á Saab druslunni.

0°C
Eimað vatn frýs.

Vatnið í Hvítá verður aðeins þykkra.

-5°C
Fólkið í Californíu frýs næstum til dauða.

Íslendingarnir grilla í síðasta sinn áður en veturinn skellur á.

-10°C
Bretar byrja að kynda húsin sín.

Íslendingar byrja að nota langerma boli.


-20°C
Götusalar byrja að flýja frá Mallorca .

Íslendingar enda miðsumarshátíðina. Haustið er gengið í garð!


-30°C
Grikkir deyja úr kulda og hverfa af yfirborði jarðar.

Íslendingar hætta að þurrka þvott úti.


-40°C
París byrjar að gefa eftir kuldanum.

Íslendingar standa í biðröð við pylsuvagnana.


-50°C
Ísbirnirnir byrja að flykkjast burt frá Norðurpólnum.

Íslenska landhelgisgæslan frestar björgunaræfingum, í von eftir alvöru
vetrarveðri.


-60°C
Mývatn frýs.

Íslendingar leigja sér spólu og halda sig inni við.


-70°C
Jólasveinninn heldur í suðurátt.

Íslendingarnir verða pirraðir því þeir geta ekki geymt brennivínið sitt úti.
Íslenska landhelgisgæslan setur í gang björgunaræfingar.


-183°C
Örverur í mat lifa ekki af.

Íslenskar kýr kvarta yfir handköldum bændum.


-273°C
Öll atóm staðnæmast vegna kulda!

Íslendingar byrja að tala um að það sé kalt úti.


-300°C
Helvíti frýs!

Ísland vinnur Eurovision!

Glerárdalur

Þá er maður kominn heim úr sumarfríinu.

Fór norður á Akureyri og tók þar þátt í göngu sem kallast 24x24 og fær hún nafnið af því að reynt er að komast á 24 fallstinda á 24 tímum. Ekki hafði ég þá á 24 tímum heldur var 27,5 tíma að ganga hringinn í kringum dalinn, reyndar telst mér til að tindarnir séu kannski líka fleiri en 24. Lagt var af stað klukkan hálf níu á laugardagsmorgun og ég var kominn til byggða rétt fyrir hádegi daginn eftir.

11 þessara tinda eru yfir 1400 metrar yfir sjávarmáli og sá hæsti, Kerling, er yfir 1500 metrar.

Þetta er svona með því erfiðasta sem maður hefur lent í á ævinni, sérstaklega fyrir það að ég átti erfitt með að borða alla leiðina (og hafði reyndar litla lyst daginn áður líka) og þegar fór að líða á nóttina fór ég að eiga erfitt með að drekka líka þar sem ég varð bara veikur ef ég lét eitthvað í magann á mér. Spurði ég gönguspésalistana hver ástæðan væri þegar ég kom til byggða og þeir sögðu að það væri ofþreyta. Var nú ekki alveg sáttur við sjálfan mig að verða svona ofsalega þreyttur snemma í göngunni að ég gæti ekki borðað en svo á mánudeginum varð elsta dóttir mín veik í maganum og svo konan mín daginn eftir svo nú hallast ég að því að ég hafi verið með einhverja pest.

Að labba þetta lengi og þetta langt (tæpa 50 km.) án þess að borða dugði til að missa fjögur kíló svo eitthvað gott hafðist út úr því LoL, en ef ég þekki sjálfan mig rétt þá verð ég nú snöggur að endurheimta þau Wink.

Það tók mig, óvanan manninn, tvo daga að jafna mig í fótleggjunum eftir þessa göngu svo nú skora ég bara á ykkur öll sem hafið gaman af gönguferðum að stefna að því að vera með á næsta ári. Það er svo sannarlega þess virði. Sérstaklega ef það verður eins gott veður eins og það var nú, þetta var bara æðislegt Smile


Heyskapur og sumarfrí

Fyrirgefið hvað ég hef verið latur að blogg upp á síðkastið.

Hefði átt að blogga síðasta sunnudag og segja ykkur frá því að ég væri byrjaður að heyja þar sem að það fyrsta var slegið þá eftir hádegið. Það síðasta af fyrri slætti var komið í plast á fimmtudagskvöldi og allt komið heim fyrir hádegi í dag. Semsagt heyskapnum lokið á viku, um 340 rúllur.

En svona til að forða ykkur frá því að vera alltaf að kíkja hér við til einskis þá ætla ég að taka mér sumarfrí frá bloggi allavega í þrjár vikur. Er að fara í göngutúr á morgun. Ætla að ganga inn að Morsárjökli að skoða skriðuna stóru sem féll þar í vor eða vetur. Ætla síðan að klára þau verk, bæði í vinnu og skóla, áður en ég fer norður í gönguna þar 7. júlí svo það verður lítið um tíma til að blogga fyrr en ég kem heim aftur.

Megi þetta vera besta sumar sem þið hafið lifað hingað til Smile


Vonlausar!

Oft hefur íslenska kýrin verið dæmd vonlaus og engin von fyrir bændur að þjóna markaðnum sæmandi með ekki betra framleiðslutæki en þetta.

Nú síðast var það það að henni væri að fækka svo að hún gæti ekki framleitt í þá auknu sölu sem hefur verið undan farin misseri. Hún entist of stutt og of fáar kvígur fæddust lifandi til að hægt væri að fjölga henni.

Í síðasta bændablaði er hins vegar fyrirsögn "Mjólkurkúm fjölgar" og segir í greininni að henni hafi fjölgaði um nærri 1000 á síðasta ári. Bændur hafa náð því aftur að framleiða á innanlandsmarkað eins og eftirspurn er fyrir og von er til að hægt verði að þjóna erlendum mörkuðum í meiru mæli á næstu misserum.

Einhverjir hafa verið til þess að benda á að bændur hafi látið allar kýr lifa, hversu lítið sem þær mjólka, til að geta þjónað markaðnum. Það er klárlega satt en samt sem áður jókst meðalnyt íslensku kýrinnar á síðasta ári sem segir manni að bændur eru enn að ná miklum framförum í ræktun kýrinnar og fóðrun.

Þegar borin eru saman kúakyn á milli landa gleymist oft að skoða með það markaðsumhverfi sem bændur í hverju landi búa við. Ef ekki hefði komið til þessi aukna sala í mjólkurafurðum hér á Íslandi síðustu ár þá hefðu íslenskir bændur ekki fjölgað kúnum eins og raun ber vitni, heldur skorið fyrr úr gallagripina sem hefði aftur leitt til þess að mjólkurskýrslur hefðu sýnt meiri aukningu á meðalnyt en annars er en meðalaldur gripanna hefði aftur á móti lækkað.

Ef íslenskir bændur sína smá þolinmæði í ræktun kýrinnar þá eiga þeir enn eftir að ná miklum árangri með hana og halda allri þeirri sérstöðu sem þeir nú hafa vegna kúakynsins í stað þess að líta bara á þann mögulega gróða sem hægt væri að hafa í dag, með því að flytja inn önnur kúakyn, á kostnað framtíðarinnar.


Árlegt mont

Skólaslit Kirkjubæjarskóla á Síðu voru í gær.

Þó skömm sé frá að segja, eftir að hafa átt börn í skólanum í 10 ár og verið í fræðslunefnd í 5 ár, þá voru þetta fyrstu skólaslitin sem ég mætti á. Varð nú að mæta núna þar sem að Mummi var að útskrifast og verð líka að mæta næstu tvö ár þar sem að Bragi útskrifast á næsta ári og Katrín árið þar á eftir.

Bragi var með 6,3 í einkunn og er það mjög svipað og hann hefur yfirleitt verið með. Hann þarf að passa sig svolítið og vera mjög duglegur næsta ár ef hann ætlar að ná öllum samræmdu prófunum á næsta ári. Hann fékk eina einkunn fyrir neðan 5 en hún var 4,5 svo hann verður bara að passa sig að gera ekki verr en núna Smile

Katrín var með 7 í meðaleinkunn og er það örugglega það slappasta sem hún hefur verið með. Ekki er þó hægt að kvarta yfir slíkri meðaleinkunn Smile

Mummi var með 6,8 í meðaleinkunn úr samræmdu prófunum og stóðst þau öll en hann tók öll sex prófin. Þrjú tók hann meira að segja kvalinn af tannrótarbólgu, upp dópaður og ósofinn, en náði samt.
Hann fékk 7,6 í meðaleinkunn úr skólaprófunum og er það með því betra sem hann hefur náð undan farin ár
Hann fékk verðlaun fyrir góðan árangur í samfélagsfræði og svo var hann sérstaklega verðlaunaður fyrir hvað hann hefur verið prúður, kurteis, duglegur og jákvæður þessi 10 ár sem hann hefur verið í skólanum. Oft hef ég verið montinn af börnunum mínum en aldrei eins held ég og þegar Mummi tók við síðar nefndu verðlaununum Blush. Ekki skemmdi heldur að hann skuli hafa fengið þessi verðlaun á þeim degi sem afi hans heitinn og nafni hefði orðið áttræður hefði hann lifað.

Guðdís fékk 8,1 í meðaleinkunn og virðist hún ætla að byrja skólagönguna vel. Hún var að klára 2. bekk. Gott að hún skuli vera kominn með góðan grunn fyrir framhaldið, þá ætti það að vera léttara.

Begga var að klára 4. bekk og fékk 9,5 í meðaleinkunn. Hún tók sex próf og fékk þrjár 9ur og þrjár 10ur. Hún var samt nærri eins ósátt og Katrín þar sem að hún fékk 9 í stærðfræði og svo lágt hefur hún aldrei fengið í því fagi og fannst henni það nú bara vera falleinkunn Shocking.

Þó að börnin mín séu misánægð með niðurstöðurnar þá er hann faðir þeirra alveg í skýjunum yfir þeim og finnst þau öll hafa staðið sig með stakri prýði


80 eru þau

Fyrir rúmri hálfri öld síðan keypti ungur maður jörð í Landbroti, Eystra-Hraun, og hafði miklar hugmyndir um hvað væri hægt að gera þar. Draumurinn var að reka þar verkstæði og þjónusta bændur á svæðinu.

Mjög lítið hafði verið ræktað á jörðinni og húsakostur mjög slæmur og fluttist þessi ungi maður ekki á jörðina fyrr en tveimur árum eftir að hann keypti hana.

Lítið var að gera til að geta rekið þar verkstæði eitt og sér svo maðurinn ákvað að koma sér upp búi og byggði bæði fjós og fjárhús og svo einnig íbúðarhús. Réð til sín ráðskonu sem hann síðan giftist.

Þegar þessi maður síðan dó fyrir nokkrum árum þá voru 50 ha ræktaðir á jörðinni, hann hafði byggt fjárhús, þrjú fjós um ævina, það stærsta fyrir 32 mjólkandi kýr og töluvert af geldneytum. Hann var búinn að byggja tvö verkstæði, það seinna með syni sínum sem lærði vélsmíði og starfaði með föður sínum síðustu árin. Komin voru þrjú íbúðarhús á jörðina áður en maðurinn dó. Vélageymslu hafði hann byggt, kartöflugeymslu og svo mætti áfram telja.

Hann átti sex börn með konu sinni, þrjá syni og þrjár dætur. Varð fyrir því óláni að lifa elsta son sinn, en hann dó úr krabbameini rétt rúmlega tvítugur.

Hann var alltaf tilbúinn til að aðstoða náungann og tók virkan þátt í félagsmálum.

Þessi maður hét Guðmundur Guðjónsson og var tengdafaðir minn. Hann var fæddur 6. júní 1927 og hefði því orðið áttræður í dag ef hann hefði lifað. Hann var mikilmenni í mínum huga og fáum mönnum, ef nokkrum, á ég eins margt að þakka. Svo takk enn og aftur Gummi og til hamingju með daginn.


Pestir og plágur

Nú er stefna hér á landi að útrýma minknum þar sem hann þykir vera plága í íslenskri náttúru og ekki hefur rebbi verið vinsæll heldur.

Ekki eru það þó þeir tveir sem ásótt hafa mig mest síðustu ár. Ein skepnu tegund hefur verið mikil plága hér í sveit núna síðustu ár. Þessi plága hefur herjað á tún bænda og stórskemmt þau þannig að uppskera hefur rýrnað verulega.

Stærsti gallinn á þessu máli er sá að þessi skepna er friðuð og bændum því gert nánast ókleift að verja sín verðmæti.

Þessi skepna er fjárans álftin. Henni hefur fjölgað mikið undan farin ár og þó er talið að hún verði að vera friðuð. Það ætti að leyfa bændum að veiða hana í túnum sínum eða selja veiðileyfi á hana þar en friða hana á öðrum svæðum. Yfirleitt er þetta ungfugl sem ekki er farinn að verpa og gæti því hentað vel á veisluborðið. Veiðin gæti því komið að meiri notum en aðeins að hreinsa úr túnum bænda.


Hard rock and water

Var að horfa á þátt í sjónvarpinu "klappir og vatn" sem rithöfundur frá Nýfundnalandi gerði og bar þar saman aðstæður þar og á Íslandi.

Að mínu áliti er þetta þáttur sem ætti að sýna öllum krökkum sem eru að útskrifast úr grunnskóla til að efla sjálfstæðisvitund þeirra.

Í þættinum kom fram að íbúar Nýfundnalands ákváðu árið 1949 að verða fylki í Kanada og veita þeim öll yfirráð yfir sínum auðlindum, fimm árum eftir að íslendingar ákváðu að verða sjálfstæð þjóð. Gríðarlegur munur er á þjóðunum í dag. Fjórðungur nýfundlendinga er atvinnulaus og þriðjungur ólæs meðan að hvoru tveggja þekkist varla hér á landi. Hún (rithöfundurinn) fór í verslanir á Nýfundnalandi og þurfti að leita lengi þar til hún fann vöru sem framleidd er þar í landi meðan að mjög stór hluti vara í verslunum hér á landi er framleiddur hér.

Auðlindir nýfundlendinga eru þó miklu meiri en okkar íslendinga. Fyrir utan fiskimiðin er þar hellingur af olíu og fleiru því sem ætti að geta komið þeim til góða og gert þá með ríkari þjóðum heims. Í stað þess er fiskurinn ofveiddur af öðrum þjóðum í þeirra lögsögu vegna þess að Kanadamenn eru daufir við að verja hann og tekjur af öðrum auðlindum renna til kanadíska ríkisins og skilar sér ekki nema að litlu leiti heim aftur. Margir viðmælendur þáttarins og rithöfundurinn sjálfur vildu meina að ástæðan fyrir þessum mun á Íslandi og Nýfundnalandi væri sú að á Íslandi veru ákvarðanirnar teknar af heimamönnum á meðan að á Nýfundnalandi voru ákvarðanirnar teknar af fólki víðs fjarri sem ekki þekkti til og hafði engra eða lítilla hagsmuna að gæta.

Maður fór ósjálfrátt að hugsa um það hvernig það yrði ef við myndum ganga í ESB og flytja með því ákvörðunarvald í mörgum mikilvægum málaflokkum út til Brussel. Myndi það koma okkur í svipaða stöðu og nýfundlendinga eru í dag?

Mikið er talað um það að þá fengjum við völd innan sambandsins þar sem að við fengjum nokkra þingmenn inn á Evrópuþingið. Nýfundlendingar fá 7 þingmenn í Kanada og þeir geta sagt okkur hvaða völd það veitir þeim en það er akkúrat engin. Svo fáir í stórum hópi gera ekki mikið fyrir þjóð sína þó þau leggi sig öll fram.

Athygli mína vakti að tekið var viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í þessum þætti og ekki nefndi hún þar að hún vildi skoða það að framselja hluta af okkar sjálfstæði til Brussel. Fannst eiginlega bara skondið að hún hafi verið valin í þennan þátt en ekki einhver t.d. frá VG eða D sem hafa lýst því yfir að ekki komi til greina annað en að halda öllu því sjálfstæði sem við höfum áunnið okkur með áratuga baráttu.


Skólinn

Þá er skólanum lokið í bili hjá mér og hef ég fengið einkunnirnar mínar.

Stærðfræði 6. Það er alveg skelfileg einkunn, held ég hafi aldrei fengið svo lágt í stærðfræði. Fékk t.d. 10 á haustönninni en verð bara að gera betur næst. Get þó huggað mig við það að ég var hræddur um að falla í þessum áfanga en það slapp.

Enska 6. Svipað og mátti vænta af mér en hélt samt að mér hefði gengið betur á prófinu en þetta.

Tölfræði 9

Bókfærsla 9. Það er mikið betra en ég átti skilið. Kláraði ekki nærri allt það efni sem ég átti að klára í vetur.

Þá er bara að skrá sig í sumarönnina.


Auglýsing!

Er ekki hægt að auglýsa þetta aðeins betur, ekki er víst að allir lesi mbl.is. Þetta hlýtur að koma í fréttum útvarps og sjónvarps á öllum stöðvum svo það sé nú alveg öruggt að allir viti af þessu og geti "leikið" með.

Held að það hafi verið gáfulegra að leyfa lögreglunni að vinna sitt verk. Koma þessum "leik" fyrir kattarnef og ná þeim sem komu honum á netið. Fáránlegt þegar fréttastofur landsins taka að sér að auglýsa allan þann viðbjóð sem umgengst í þjóðfélaginu.


mbl.is Nauðgunarþjálfun á Netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Dúddi bóndi

Ágúst Dalkvist
Ágúst Dalkvist

Hin hliðin :) Vonandi finnið þið eitthvað sem þið getið verið ósammála mér um ;)

 

Spurt er

Ætlar þú að fyrirgefa, taka ábyrgð á eigin gerðum og standa með öðrum íslendingum að vinna sig út úr kreppunni?
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband